Kæru vinir nær og fjær,

Frá upphafi fannst okkur mikilvægt að geta boðið ykkur til okkar, haft vörurnar aðgengilegar og sýnilegar, sem og verkferla okkar. Í þessum bransa byggir reksturinn nefnilega nær eingöngu á trausti ykkar á okkur - sem við höfum kappkostað við að tryggja okkur með fræðslu, gagnsæi og aðgengi dag eftir dag. Það þykir áhættuminna að versla sér vöru sem tíðkast að falsa ef maður hefur þann valkost að skoða hana, snerta og máta fyrir kaupin. Með tímanum hefur Attikk orðið þekkt fyrir það traust sem við höfum byggt. Í Attikk færð þú einungis ekta merkjavörur og það vita viðskiptavinir okkar. Takk kærlega fyrir traustið.

Við tilkynnum ykkur nú með sorg í hjarta að verslun okkar á Laugavegi 90 lokar frá og með föstudeginum 30. ágúst nk. Í miðjum samningaviðræðum um lok leigusamnings eða bætt leigukjör í húsnæðinu okkar var það selt. Nýir leigusalar eru ekki tilbúnir að koma til móts við okkur. Vonin var að geta fært okkur þetta sumarið. Í þegar erfiðu rekstrarumhverfi sjáum við ekki fram á að geta rekið verslun Attikk í núverandi aðstæðum.

Framtíð Attikk er óráðin eins og er. Af þessum sökum erum við tímabundið hætt að taka við vörum. Við flytjum móttöku Attikk og þ.á.m. allar vörur á öruggan stað á nk. vikum. Hvort, hvar og hvernig við opnum verslun okkar aftur verður að koma í ljós. Við vonum að þið hafið lært það á sl. árum að hjá Attikk fást einungis ekta merkjavörur og að viðskiptavinurinn fái alltaf að njóta vafans hvað það varðar. Hið sama gildir áfram, líka í vefverslun okkar. Við vonum til að sjá sem flesta nýta þjónustu okkar áfram á vefnum.

Frá og með 30. ágúst þurfa seljendur að bóka tíma til þess að geta sótt vörur sínar. Seljendur fá í framhaldinu póst með afhendingarstað. Einhverjir seljendur hafa nú þegar fengið tilkynningu um að sækja vörur sem fyrst. Seljendum er auðvitað velkomið að sækja vörur sínar eftir hefðbundnu fyrirkomulagi fyrir þann tíma á Laugavegi 90. 

Með von um samkennd og áframhaldandi stuðning þökkum við fyrir allt.

Með ástarkveðju, 
Attikk teymið